Skráningu í Laugavegshlaupið 2025 er nú lokið
Nú er unnið hörðum höndum að því að fara yfir allar umsóknir og hlökkum við til að tilkynna hverjir fá þátttökurétt í Laugavegshlaupið 2025.
Skráningarfyrirkomulagið fyrir árið 2025
(svipað 2024)
Skráningin opnar í hádeginu þann 6. nóvember og verður opin í viku, eða til miðnættis þann 13. nóvember. Þátttökuskilyrðin eru 370 ITRA stig. Ef eftirspurn verður meiri en framboð af sætum í hlaupið, verður dregið úr skráðum þátttakendum. Hlauparar geta fengið ITRA stig með því að taka þátt í utanvegahlaupum sem eru viðurkennd af ITRA samtökunum (International Trail Running Association).
- 6. nóvember kl. 12:00 - Skráning opnar í Laugavegshlaupið 2025
- 13. nóvember kl. 24:00 - Skráning lokar í Laugavegshlaupið 2025
- 20. nóvember kl. 12:00 - Tilkynnt verður hverjir komust í Laugavegshlaupið 2025
- 20. - 27. nóvember - Endurgreiðslur til þeirra sem fengu ekki miða.
- 30. desember - Síðasti dagur 75% endurgreiðslu.
- 1. mars - Síðasti dagur 50% endurgreiðslu.
- 8. júní - Síðasti dagur til að breyta áætluðum lokatíma.
- 12. júlí - Hlaupið fer fram!
Þátttökugjaldið: 55.000 kr.
Innifalið í þátttökugjaldi
- Peysa frá 66°norður
- Brautar- og öryggisgæsla
- Drykkir á drykkjarstöðvum í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum, Ljósá, Þröngá og í Húsadal.
- Salernisaðstaða í Hrauneyjum, Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum og Húsadal
- Flutningur á farangri í Bláfjallakvísl og í Húsadal
- Þátttökuverðlaun, sigurverðlaun, aldursflokkaverðlaun, sveitaverðlaun
- Sturtuaðstaða í Húsadal ásamt húsaskjóli í tjaldbúðum hlaupsins til að matast og hafa fataskipti
- Læknir og hjúkrunarfólk ef á þarf að halda í Húsadal
- Tímataka og númer
- Upplýsingar
- Flutningur til byggða fyrir þá sem ekki ná tímamörkum
Ekki innifalið í þátttökugjaldi
- Rútuferðir
- Morgunverður í Hrauneyjum
- Heit máltíð að hlaupi loknu
Tekið verður á móti pöntunum fyrir þessa þjónustu í gegnum „Mínar síður" (frá 1. febrúar til 1. júlí 2025). Sjá nánar um rútuferðir hér og mat hér.
Greiðslufyrirkomulag
Í skráningarferlinu er hægt að velja um að greiða þátttökugjaldið með öllum helstu tegundum af greiðslukortum og/eða gjafabréfi. Að lokinni skráningu fær viðkomandi sendan tölvupóst skráningunni til staðfestingar. Berist ekki póstur hefur skráning ekki gengið í gegn.
Greiðsla á þátttökugjaldi
Greitt er fyrir þátttöku með greiðslukorti. Þeir hlauparar sem fá ekki úthlutað skráningu 20. nóvember og fara á biðlista fá endurgreitt á kortið sitt fyrir 27. nóvember.
* ÍBR tekur 13.750 kr umsýslugjald við vinnslu umsóknar þeirra sem komast inn í hlaupið, þetta er hluti af skráningargjaldinu. Þessi hluti gjaldsins er ekki endurgreiðanlegur (fyrir þau sem komast inn í hlaupið).
Úrvinnsla umsókna
Að umsóknarfresti liðnum fer starfsfólk ÍBR yfir ITRA stig hlaupara með því að keyra saman gagnagrunn ITRA og skráningarkerfi Laugavegshlaupsins. Ákveðinn fjöldi sæta í hlaupið fer til stigahæstu hlauparanna. Allar gildar umsóknir fá slembitölu. Úthlutun slembitalna á umsóknum er framkvæmd af starfsmanni ÍBR og fulltrúa frá langhlaupanefnd FRÍ og verður síðan dregið úr þeim umsóknum í lottó.
Umsóknir/afskráning
Þátttökuskilyrðin fyrir skráningu í Laugavegshlaupið 2025 eru 370 ITRA stig. Mikilvægt er að öll skoði vel ITRA stigin sín og skrifi þau rétt inn í skráningarkerfið. Ef umsækjandi hyggst ekki nýta skráninguna sem hann hefur fengið úthlutað og greitt, skal hann láta ÍBR vita með því að senda póst á info@marathon.is. Ekki er hægt að færa skráninguna yfir á næsta ár.
ITRA
ITRA eru alþjóleg samtök utanvegahlaupara, stofnuð 2013. Hlutverk þeirra er að vera bæði hlaupurum og hlaupahöldurum innan handar varðandi allt sem við kemur utanvegahlaupum. Það eru fjölmörg utanvegahlaup á Íslandi og erlendis skráð hjá ITRA og þeim fer fjölgandi. ITRA gæðametur utanvegahlaup út frá vegalend og samanlagðri hækkun ásamt því að birta úrslit úr utanvegahlaupum. Hægt er að skoða þessi hlaup á heimasíðu ITRA undir flipanum "races". ITRA heimsíðan er: www.itra.run
Stigakerfi ITRA
ITRA gefur hlaupara stig eftir því hversu hratt hann fer viðkomandi hlaupaleið, frá 0 til 999. Þeir hröðustu fá hæðsta stigaskorið o.s.frv. Það eru um 7.400 íslenskir utanvegahlauparar í gagnagrunni ITRA og meðaltal íslenskra hlaupara eru um 430 stig, sjá mynd hér fyrir neðan. Ef þú hefur tekið þátt í utanvegahlaupum síðustu ár eru mjög miklar líkur á að þú sért nú þegar í gagnagrunninum og sért skráð/ur með stig. Stig eru reiknuð sem meðaltal besta árangurs í utanvegahlaupum síðastliðin 3 ár. Ef þú hljópst t.d. Laugaveginn 2021 þá ertu með stig fyrir þann árangur. Önnur utanvegahlaup síðastliðin 3 ár (36 mánuði) gefa þér einnig stig, eins lengi og þau hafa verið gæðametin af ITRA.