Reglur Laugavegshlaupsins

Reglur Laugavegshlaupsins byggja á leiðbeiningum ITRA um framkvæmd utanvegahlaupa og á þeirri reynslu sem mótshaldari hefur öðlast gegnum framkvæmd hlaupsins undanfarin 28 ár. Hafa ber í huga að Laugavegshlaupið er ekki götuhlaup. Það flokkast undir ofurmaraþon (Ultra Marathon) á fjöllum í óbyggðum og lýtur alfarið eigin reglum mótshaldara. Reglurnar eru tilvísun í íþróttir almennt þar sem hver og einn þátttakandi gerir sitt besta, tekur tillit til og virðir aðra þátttakendur og fer eftir settum reglum.

Til þess að gera mótshaldara kleift að framkvæma Laugavegshlaupið og þjónusta þátttakendur eru settar reglur um heiðarlega keppni, öryggi og virðingu fyrir náttúrunni, þ.e. landsvæðinu sem hlaupið er um og veðurfarinu sem kallar á réttan klæðnað. Mótshaldari frestar eingöngu keppni ef framkvæmd hlaups er ekki möguleg samkvæmt skipulagi. Hver og einn hlaupari ákveður fyrir sig hvort hann hleypur þrátt fyrir þoku eða önnur slæm veðurskilyrði.

Meginreglurnar eru þær sem varða öryggi þátttakenda og „aðgöngumiðinn“ að Laugavegsleiðinni er loforð um að vernda náttúruna með því að hlaupa á stígum leiðarinnar og skilja ekki eftir sig neitt rusl eða úrgang. Þátttakendur bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér þær reglur sem gilda um þátttöku í Laugavegshlaupinu og fylgja þeim eftir í einu og öllu.

1. Skráning

  • Aldurstakmark 18 ár (einstaklingar fæddir árið 2007 og áður geta tekið þátt).
  • Þátttökuskilyrði eru 370 ITRA stig (performance index). 
  • Þátttakendur bera ábyrgð á að allar upplýsingar séu rétt skráðar. 

2. Reglur sem lúta að umgengni og öryggi þátttakenda

  • Óheimilt er með öllu að kasta frá sér rusli á leiðinni og algjört bann er við losun mannlegs úrgangs utan salernis.  
  • Hlauparar verða að vera með sín eigin glös eða brúsa til að nota á drykkjarstöðvum (Hlaupahaldari verður ekki með einnota pappaglös á drykkjarstöðvum). 
  • Þátttakendur skrifa undir skjal þess efnis að þeir hafi kynnt sér reglur og skilmála hlaupsins og ætli að fara eftir þeim í hvívetna.
  • Þátttakendur tryggja að þeir séu líkamlega og andlega hæfir og með nægan undirbúning að baki til að hlaupa 55 km Laugavegshlaup á innan við 9 klukkustundum og 15 mínútum.
  • Þátttakendur fara eftir fyrirmælum sem tilgreind eru um fatnað hér og skulu þeir hafa meðferðis viðeigandi fatnað.
  • Þátttakendur þurfa að hafa hlaupanúmer sýnilegt að framanverðu til þess að starfsmenn geti séð hverjir eru skráðir í hlaupið og flýta fyrir öryggistalningu. Hlaupanúmer er skráð á ákveðinn þátttakanda og gildir eingöngu fyrir þann einstakling. Frávik frá þessu ógildir skráningu og þar með þátttökurétt. Auk þess skulu þeir vera með þátttökuarmband um úlnlið.
  • Þátttakendur þurfa, á meðan hlaupinu stendur, að hafa skyldu öryggisbúnað á sér, flautu, álteppi, jakka og síma og vera viðbúnir því að starfsmenn hlaupsins óski eftir því að sjá öryggisbúnaðinn áður en keppni hefst, meðan á henni stendur og í endamarki. Ef þátttakandi uppfyllir ekki þessi skilyrði bætast 60 mínútur við lokatíma viðkomandi.
  • Til að fá skráðan tíma og í öryggisskyni skulu allir þátttakendur fara í gegnum tímatökuhlið í rásmarki, í Emstrum, Álftavatni og í endamarki.
  • Þátttakendur sem neyðast til að hætta í hlaupinu á miðri leið vegna veikinda eða meiðsla, er skylt að gefa sig fram við starfsmenn hlaupsins.
  • Ef þátttakandi nær ekki tímamörkum við Álftavatn (4 klukkustundir) eða í Emstrum (6 klukkustundir og 30 mínútur), þá er viðkomandi skylt að hætta þátttöku og ekki heimilt að fara lengra. Þeir sem ekki fara eftir þessum fyrirmælum hafa ekki rétt til frekari þjónustu af hálfu hlaupsins og bera þann kostnað sem til fellur við leit björgunarsveita. 
  • Þátttakandi sem hættir keppni er á ábyrgð mótshaldara og hefur ekki leyfi til að halda áfram á eigin vegum frá næsta skála á viðkomandi svæði. Mikilvægt er að þátttakendur virði þessa reglu.
  • Ef einhvern þátttakenda vantar á þátttökulista við Álftavatn, Emstrum eða við lok hlaupsins er hann álitinn týndur. Viðbrögð við því er útkall björgunarsveita.

3. Keppnisreglur í Laugavegshlaupi

  • Óheimilt er að þiggja utanaðkomandi aðstoð einhvers sem ekki er skráður þátttakandi í hlaupið nema í neyðartilvikum.
  • Það er á ábyrgð hvers þátttakanda að neita utanaðkomandi aðstoð nema um neyðartilvik sé að ræða.
  • Það er á ábyrgð hvers þátttakanda að hlaupa ekki með utanaðkomandi hlaupara.
  • Hver og einn þátttakandi þarf að bera sinn eigin farangur, rusl og drykkjarmál.
  • Þátttakendur skulu taka tillit til annarra þátttakenda.
  • Þátttakendur mega aðstoða aðra þátttakendur með öryggi sitt og annarra í huga.
  • Þátttakendur skulu sýna öllum starfsmönnum hlaupsins kurteisi og fara eftir leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra. 
  • Þeir þátttakendur sem ætla að hlaupa með hlaupastafi eiga að byrja aftast í sínum ráshóp og þurfa hlauparar sem leggja af stað með staf að koma í mark með stafina. Ekki er heimilt að skila af sér stöfunum á leiðinni.

4. Viðurlög

  • Þeir sem ekki fara eftir fyrirmælum og reglum hlaupsins eða starfsmanna þess, eiga það á hættu að fá ekki skráningu aftur í hlaupið.

5. Réttur mótshaldara

  • Mótshaldari er ekki ábyrgur fyrir utanaðkomandi áhrifum á hlaupara. Það á við um veður, náttúruhamfarir, umferð fólks og farartækja eða annað óvænt sem getur haft áhrif á þátttakendur.
  • Mótshaldari getur afskráð og stöðvað þátttakanda sem ekki er í fatnaði eða á annan hátt búinn sem hæfir aðstæðum.
  • Mótshaldari getur afskráð þátttakanda sem skapar hættu fyrir sjálfan sig og/eða aðra.
  • Mótshaldari getur vísað frá keppni hverjum þeim sem fara ekki eftir reglum hlaupsins.
  • Mótshaldari og starfsmenn hlaupsins geta vísað þeim sem ekki hafa númer og merki mótsins sýnileg, frá mótssvæði og braut keppninnar.
  • Mótshaldari er ekki ábyrgur fyrir veikindum eða slysum þátttakenda, til og frá mótsstað og meðan á hlaupi stendur. Þátttakendur eru hvattir til að leita aðstoðar starfsmanna hlaupsins ef slys eða veikindi koma upp.
  • Þátttakendur eru alltaf á eigin ábyrgð þrátt fyrir að þeir þiggi aðstoð starfsmanna hlaupsins.
  • Mótshaldari getur vísað frá keppni hverjum þeim sem fara ekki eftir reglum hlaupsins.
  • Íþróttabandalag Reykjavíkur, sem er framkvæmdaraðili hlaupsins, áskilur sér rétt til að aflýsa hlaupinu með stuttum fyrirvara vegna náttúruhamfara, veðurs, heimsfaraldurs eða annarra ófyrirsjáanlegra ástæðna sem geta skapað hættu fyrir þátttakendur og starfsmenn.

6. Kærur

  • Þátttakendur sem telja að á sér hafi verið brotið geta lagt fram kæru til mótshaldara.
  • Kæra þarf að berast skriflega til hlaupstjóra á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Kæra vegna heildarúrslita þarf að berast í síðasta lagi kl. 16:30 á hlaupdegi.
  • Kæra sem varðar aldursflokka þarf að berast í síðasta lagi 30 mín. eftir að síðasti hlaupari kemur í mark.
  • Þriggja manna ráð úrskurðar á staðnum eftir að hafa rætt við þá sem hlut eiga að máli.

Styrktaraðilar

  • Reykjavik Excursions
  • Corsa
  • 66 Norður
  • Suzuki
  • Volcano Huts
  • Ferðafélag Íslands
  • ITRA member
  • Gatorade