Tímatakmörk eru sett með öryggi hlauparans í huga. Í Laugavegshlaupinu er miðað við að hlauparar geti klárað 55 km á innan við 9:15 klukkutímum sem gefa 370 ITRA stig. Eftir þann tíma er starfsfólki hlaupsins heimilt að byrja að taka saman búnað á marksvæði. Til að ná tímatakmörkum verða hlauparar að vera farnir út af drykkjarstöð í Álftavatni (22 km) á innan við 4 klukkustundum og út af drykkjarstöð í Emstrum (38 km) á innan við 6 klukkustundum og 30 mínútum (sjá skipulag á drykkjarstöðum á myndum hér fyrir neðan). Þeir hlauparar sem ná ekki þessum tímatakmörkum þurfa að hætta í hlaupinu. Þessi regla á við um alla þátttakendur og er ekki hægt að semja við starfsfólk á staðnum um aðra kosti.
Þátttakendum sem ná ekki tímamörkum hefur fjölgað og margir þeirra virðast ekki hafa kynnt sér regluna um tímamörkin. Þess vegna skal það ítrekað að þátttakendur undirbúi sig með það í huga og lesi sér til um reglur og skipulag hlaupsins. Það er mikilvægt að hver og einn viti hvernig tímatakmörkum er háttað og hvað tekur við í kjölfarið.
Aðstæður og skipulag í Álftavatni og í Emstrum eru eftirfarandi:
- Af öryggisástæðum eru þátttakendur sem ná ekki tímamörkum eða hætta keppni á ábyrgð mótshaldara og hafa ekki leyfi til að halda áfram á eigin vegum.
- Aðstæður í Álftavatni og í Emstrum bjóða eingöngu upp á öryggisþjónustu.
- Ekki er öruggt með húsaskjól. Það er takmarkað pláss í skálum Ferðafélags Íslands og þeir uppteknir af göngufólki.
- Starfsfólk skráir niður nafn og hlaupanúmer allra þeirra sem eru stöðvaðir og leiðbeina þeim um næstu skref.
- Það eru ekki þurr föt á staðnum fyrir hlaupara og ekki annar matur en tilheyrir drykkjarstöðvum á staðnum.
- Þátttakendum verður ekið frá Emstrum á Hvolsvöll og þaðan til Reykjavíkur. Gera má ráð fyrir stoppi og jafnvel bið á Hvolsvelli í nokkrar klukkustundir á leiðinni til Reykjavíkur.
- Þess skal getið að bið getur orðið á brottför frá Álftavatni og Emstrum og að ferðalagið frá Álftavatni og Emstrum að Hvolsvelli getur tekið 2-3 klst.
- Þar sem símasamband á milli Emstra og Húsadals er takmarkað berast upplýsingar á milli seinna en ætla má. Starfsfólk í Húsadal reyna eftir fremsta megni að miðla upplýsingum til hlaupafélaga og fjölskyldumeðlima þeirra sem ná ekki tímamörkum.
- Ekki er hægt að flytja þátttakendur frá Emstrum í Þórsmörk. Það er of tímafrekt. Frá Emstrum á Hvolsvöll tekur 2-3 klst að keyra og frá Hvolsvelli inn í Húsadal tekur 2-3 klst. eftir færð. Þá er klukkan orðin 19-20 og síðasta rúta með þátttakendur úr Húsadal fer kl. 20:00.
- Farangri þátttakenda sem fara beint frá Emstrum og Álftavatni til Reykjavíkur, verður komið til Reykjavíkur svo framarlega að hann hafi verið settur í rútu hlaupsins í Landmannalaugum og merktur með hlaupanúmeri sem tilheyrir hlaupinu.
- Matur í Húsadal sem keyptur hefur verið af veitingasölu á staðnum er ekki endurgreiddur þeim sem ná ekki tímamörkum.
Tímatökuhliðið í Emstrum verður í tröppunum sem liggja frá skálanum
Yfirlit yfir skipulagið í Álftavatni
Yfirlit yfir skipulagið í Emstrum