Leiðarlýsing

Vegalengdin frá Landmannalaugum í Þórsmörk er um 55 km. Stígur er alla leiðina þar sem undirlag er að mestu leyti sandur, möl, gras, snjór, ís og vatnsföll en leiðin er mjög vel stikuð þannig að ekki ætti að vera mikil hætta á að farið sé af leið.

Hlaupinu er hægt að skipta niður í fjóra hluta:
1. Landmannalaugar - Hrafntinnusker 10 km
2. Hrafntinnusker - Álftavatn 12 km 
3. Álftavatn - Emstrur 16 km 
4. Emstrur - Þórsmörk 17 km

Fyrsti áfangi leiðarinnar er frá Landmannalaugum í Hrafntinnusker. Loftlína er um 10 km og lóðrétt hækkun tæpir 500 m. Þetta er falleg leið og mjúkt undirlag en jafnframt erfiðasti kafli leiðarinnar vegna þess hve stór hluti hennar er á fótinn. Það er því rétt að fara rólega af stað því þetta er einungis tæplega einn fimmti af leiðinni. Búast má við snjóundirlagi umhverfis Hrafntinnusker. Árið 2015  var óvenju mikill snjór þar eða samfelldur snjór í 8-10 km. Þessi kafli þótti erfiður yfirferðar þar sem snjórinn var blautur og þungur.  Þetta  svæði er mikið jarðhitasvæði og þarf að fara með aðgát.

Annar hluti leiðarinnar er frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni. Loftlína er um 12 km og lóðrétt lækkun um 500 m. Þessi hluti liggur hæst á leiðinni og er hægt að búast við snjó og ís. Landslagið frá Hrafntinnuskeri er sandur með skurðum sem eru misfullir af snjó eftir árferði. Leiðin liggur því upp og niður í öldum. Að loknum þessum öldukafla tekur við klifur upp í móti áður en tekur við nokkuð sléttur kafli framhjá hæsta fjalli á svæðinu, Háskerðingi. Þá er komið að smá kafla sem er jarðhitasvæði sem þarf að fara yfir að hluta upp í móti. Þar getur undirlagið verið sleip leirdrulla og þurfa hlauparar að vanda sig í hverju skrefi. Eftir það birtist stórkostlegt útsýni á brúnum Kaldaklofsfjalla og við blasir Álftavatnið. Þangað liggur leiðin bratt niður Jökultungurnar en þar þarf að fara með gát því að fótfesta er ekki mikil á slóðanum.  Fyrsta vatnsfallið á leiðinni er Grashagakvísl og á að vera auðvelt að stikla á steinum þar yfir.

Þriðji áfangi leiðarinnar er frá Álftavatni í Emstrur. Loftlína er um 16 km og lóðrétt lækkun um 50 m. Annað vatnsfallið á leiðinni er Bratthálskvísl og það þriðja er Bláfjallakvísl. Kaðall er strengdur yfir Bláfjallakvísl til að styðja sig við þegar farið er yfir ána. Starfsfólk frá Björgunarfélagi Árborgar eru einnig á staðnum. Töskur þátttakenda eru staðsettar við Bláfjallakvísl, þegar komið er yfir ána. Þessi þriðji áfangi er að mestu leiti á jafnsléttu. Undirlagið er sandur næstum alla leið sem getu verið þungur yfirferðar. Þessi áfangi endar með langri brekku niður í móti að Emstrum.

Fjórði hluti leiðarinnar frá Emstrum í Húsadal í Þórsmörk er um 17 km í loftlínu og lóðrétt lækkun um 300 m. Fljótlega er farið yfir Fremri-Emstruá á brú. Nauðsynlegt er að fara með aðgát þar því að bratt er niður að brúnni. Til staðar er kaðall sem notaður er til að komast niður að brúnni. Á þessari leið tekur við ný tegund af fjölbreyttu landslagi sem liggur upp og niður. Síðasta hækkun er Kápan en þegar upp hana er komið sést yfir í Þórsmörk. Hinumegin við Kápuna er Þröngá sem er síðasta áin sem þarf að vaða yfir en hún er vatnsmest af þeim vatnsföllum sem þarf að fara yfir (0,5-1,0 m á dýpt). Til að koma í veg fyrir óhapp er kaðall strengdur yfir ána þannig að hægt er að hafa stuðning af honum þegar vaðið er yfir. Eftir vaðið eru u.þ.b. 4 km sem liggja eftir skógarstígum upp og niður þangað til marklínu er náð í Húsadal.

Styrktaraðilar

  • Reykjavik Excursions
  • Corsa
  • 66 Norður
  • Suzuki
  • Volcano Huts
  • Ferðafélag Íslands
  • ITRA member
  • Gatorade